Það er að heilmiklu sem fólk þarf að huga við skilnað og er það okkar reynsla að fólk eigi erfitt með að aðgreina á milli hinna ýmsu hugtaka því tengt.

Ýmsar skilgreiningar og svör við algengum spurningum

 
  • Öll börn eiga rétt á forsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs en forsjá getur verið sameiginleg sem er meginreglan, eða hjá öðru hvoru foreldrinu. Foreldrar sem eru í hjúskap og foreldrar í skráðri sambúð fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Að foreldri fari með forsjá barns þýðir m.a. að foreldrið eða foreldrarnir eiga rétt á og ber skylda til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess, auk þess að vera fjárhaldsmaður barns. Forsjárforeldrum ber skylda til að vernda barn gegn ofbeldi, annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu. Við sambúðarslit og/eða skilnað foreldra þurfa foreldrar að ákveða hvort forsjáin eigi áfram að vera sameiginleg eða hvort að annað hvort foreldrana fari eitt með forsjá barns.

    Þegar forsjá er sameiginleg er gert ráð fyrir því að foreldrar taki sameiginlega allar meiriháttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá á hinn bóginn heimild til að taka minniháttar ákvarðanir um hversdagslegar þarfir barns. Erfitt er að skilgreina hvað er meiriháttar og hvað er minniháttar ákvörðun og skoðanir manna geta verið skiptar á því. Þetta er hvergi skilgreint sérstaklega í lögum. Undantekning á því er þó að samþykki beggja foreldra þurfi til þegar til utanlandsferðar barns kemur, þar sem í barnalögum segir að ekki megi fara með barn úr landi ef forsjá er sameiginleg nema báðir foreldrar samþykki. Þá má almennt ekki gefa út vegabréf fyrir barn nema báðir forsjárforeldrar samþykki samkvæmt lögum um vegabréf.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Kynna þér vel hvað felst í sameiginlegri forsjá.

    — Ákveða hvort forsjá skuli vera sameiginleg eða ekki.

    — Ef ágreiningur er um forsjá þarf að byrja á því að leita til sýslumannins sem veitir aðstoð við að ná samkomulagi.

    — Höfða þarf mál fyrir dómi ef ekki næst samkomulag um forsjá hjá sýslumanni.

    — Ef þú ert í vafa getur þú haft samband.

  • Lögheimili er almennt sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu er lögum samkvæmt átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans. Öllum fullorðnum einstaklingum á Íslandi er skylt að skrá lögheimili sitt í tiltekinni íbúð eða húsi.

    Lögheimili barna fylgja lögheimilum foreldra þeirra. Við sambúðarslit/skilnað er skylt að ákveða hvar lögheimili barns skuli vera, þ.e. það skal skráð til lögheimilis hjá öðru foreldrinu. Lögheimili barns fylgja ýmis réttindi en einnig skyldur fyrir foreldrið. Það getur því haft þýðingu „útávið“ eins og t.a.m. varðandi rétt til barnabótagreiðslna, frístundastyrkja, systkinaafslátta og fleira. Einnig getur það skipt máli í innbyrðis samskiptum foreldra og þegar taka á ákvarðanir um barnið hvar barnið hefur skráð lögheimili sbr. umfjöllun um forsjá.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Kynna þér vel hvað felst í því að hafa lögheimili barns skráð hjá sér.

    — Ákveða hvar barn eigi að hafa skráð lögheimili.

    — Ef ágreiningur er um lögheimili barns þarf að byrja á því að leita til sýslumannins sem veitir aðstoð við að ná samkomulagi.

    — Höfða þarf mál fyrir dómi ef ekki næst samkomulag um lögheimili barns hjá sýslumanni.

    — Ef þú ert í vafa getur þú haft samband.

  • Skipt búseta er nýtt úrræði sem varð að lögum 1. janúar 2022. Í hinu nýja lagaákvæði segir að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns en búa ekki saman geti samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Ef samið er um skipta búsetu barns skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga búsetuheimili hér á landi. Athuga verður að ekki er hægt að ákveða skipta búsetu nema báðir foreldrar barnsins séu því samþykk.

    Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að foreldrar séu í góðri samvinnu um allt sem viðkemur barninu og geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins og að búsetu foreldra sé þannig háttað að þau búi nálægt hvort öðru og í sama sveitarfélagi.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Kynna þér vel hvað felst í skiptri búsetu.

    — Ef samkomulag er til staðar þurfa foreldrar sameiginlega að fylla út eyðublað sem er að finna hjá www.syslumenn.is

    — Annað foreldri eða báðir geta óskað eftir brottfalli samnings um skipta búsetu og fellur hann þá úr gildi.

    — Ef þú ert í vafa hvort að skipt búseta eigi við þið/ykkur getur þú haft samband.

  • Umgengni barns við foreldri og samvistir barns við foreldri er það sama. Bæði hugtökin eru venjulega notuð í fjölskyldumálum en barnalögin tala eingöngu um umgengni.

    Rétturinn til umgengni við foreldri er almennt talið til grundvallarréttinda barns, þ.e.a.s. barn á rétt á samvistum við báða foreldra sína. Samvistunum er ætlað að tryggja tengsl barnsins og foreldrisins og viðhalda sambandi þeirra. Að sama skapi á foreldri rétt á samvistum við barn sitt, séu samvistirnar ekki andstæðar þörfum þess.

    Þegar foreldrar slíta sambandi sínu þurfa þau að komast að samkomulagi um hvernig samvistunum skuli háttað. Flestir foreldrar gera skriflegt samkomulag um samvistirnar en það er ekki skylda. Ef foreldrar geta ekki komist að samkomulagi getur sýslumaður úrskurðað um hvernig umgengni skuli vera. Sýslumaður veitir einnig sáttameðferð sem skylt er að fara í áður en úrskurðað er.

    Fyrirkomulag samvista getur verið mjög mismunandi eftir aðstæðum foreldra og barna. Helstu atriði sem líta þarf til við ákvörðun um samvistir eru tengsl barnsins og foreldrisins, aldur barns, búseta foreldra, umgengni við systkini og vilji barns ef um stálpuð börn er að ræða.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Kynna þér vel hvers konar samvistir henta barninu þínu

    — Ná samkomulagi um samvistirnar og ákveða hvort það skuli vera skriflegt

    — Ef ekki næst samkomulag þarf að fylla út eyðublað sem er að finna hjá www.syslumenn.is

    — Ef þú ert í vafa getur þú haft samband.

  • Foreldrum er skylt að framfæra börnum sínum þar til það nær 18 ára aldri. Í framfærslu felst að sjá barni fyrir daglegum þörfum, s.s. mat, húsnæði og fatnaði en einnig að greiða fyrir skóla eða dagvistun og tómstundir. Ef foreldri hefur ekki forsjá eða skráð lögheimili barns hjá sér er því skylt að greiða meðlag sem er talið lágmark þess sem greiða skal til framfærslu barns. Hið opinber ákveður fjárhæð þess, sem nú (árið 2022) er kr. 38.540 á mánuði. Fjárhæðin er endurskoðuð einu sinni á ári.

    Foreldrum er skylt að ákveða um svokallaða meðlagsskyldu við hjónaskilnað eða sambúðarslit, þ.e. það þarf að liggja fyrir samkomulag um skyldu þess foreldris sem ekki hefur forsjá eða lögheimili barns til greiðslu meðlags með því. Foreldrar geta svo ákveðið með samningi hvernig meðlagið er innheimt en meðlag er annaðhvort greitt beint milli aðila eða innheimt í gegnum opinberar stofnanir (Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga).

    Rétt er að taka fram að það er skylt að ákveða um meðlagsgreiðslur þó að samvistir barna við foreldra eru jafnar, en undantekning frá því er þó nýtt fyrirkomulag um skipta búsetu.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Kynna þér vel hvað felst í meðlagi og framfærslu barns

    — Ákveða hvernig meðlagsgreiðslum skuli háttað

    — Fara til sýslumanns til að staðfesta meðlagsskyldu

    — Ef þú ert í vafa getur þú haft samband.

  • Skilnaður er langoftast lífskrísa hjá foreldrum og börnum og því mikilvægt að huga vel að þörfum barna þegar tekist er á við þá áskorun. Fagfólk og fræðimenn eru sammála um að það sé ekki skilnaðurinn sjálfur sem getur valdið börnum erfiðleikum eða skaða, heldur miklu frekar það hvernig foreldrar standa að skilnaðinum. Þess vegna skiptir það börnin miklu máli að foreldrar séu með hagsmuni barna sinna að leiðarljósi þegar þeir ganga í gegn um skilnað en í því samhengi getur verið gagnlegt að fá stuðning og ráðgjöf því tengt.

    Inni á vef Samvinnu eftir skilnað – barnanna vegna (SES) er að finna fjölmörg stafræn námskeið fyrir foreldra um áhrif skilnaðar á foreldra, um áhrif skilnaðar á börn og samskipti á forsendum barna, auk námskeiða um samskipti foreldra og um það hvernig hægt er að forðast algengar samskipta gryfjur sem foreldrar eiga það til að falla í. Stafræni vettvangurinn er opinn öllum foreldrum án endurgjalds og hvetjum við alla foreldra til þess að kynna sér nánar stafræna vettvanginn samvinnaeftirskilnad.is

  • Fólk sem býr saman finnur ekki endilega mun á því dags daglega hvort það er gift eða í sambúð. Ef það kemur til slita á sambandinu eða andláts er þó verulegur munur á réttindum fólks og þá getur það skipt miklu máli hvort um sambúð eða hjónaband er að ræða. Sérstaklega er mikill munur á reglum um fjárskipti eftir því hvort um hjónaband eða sambúð eða að ræða og einnig er mjög mikill munur á erfðareglum. Reglur um málefni barna eru svipaðar hvort sem um er að ræða slit á hjónabandi eða sambúð.

  • Til að fá skilnað að borði og sæng þurfa hjón að útbúa samning um fjárskipti sín. Eigi hjónin börn undir 18 ára aldri þarf jafnframt að útbúa samkomulag um málefni barnanna. Liggi fyrir samkomulag um hvoru tveggja þarf að panta tíma hjá sýslumanni til að staðfesta það og þá er leyfi til skilnaðar að borði og sæng gefið út. Náist ekki samkomulag er ekki hægt að gefa út skilnaðarleyfi. Sýslumaður veitir sáttameðferð og ráðgjöf varðandi málefni barna ef ekki næst samkomulag en ekki varðandi fjárskipti. Ef ekki liggur fyrir samkomulag um fjárskipti þarf yfirleitt að leita lögmannsaðstoðar en sýslumaður veitir ekki ráðgjöf um fjárskipti. Hjón með börn þurfa einnig að framvísa sáttavottorði frá presti.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Panta tíma hjá sýslumanni og sækja um skilnað að borði og sæng.

    — Ná samkomulagi um málefni barna og um fjárskipti.

    — Fá sáttavottorð hjá presti

    — Ef ekki er samkomulag er hægt að hafa samband.

  • Hægt er að fá lögskilnað sex mánuðum eftir skilnað að borði og sæng ef (fyrrverandi) hjónin eru sammála um það. Þá einfaldlega fylla þau út eyðublað um það og skila inn til sýslumanns. Ef hjónin eru ekki sammála á hvor aðili um sig rétt á lögskilnaði að 12 mánuðum liðnum frá skilnaði að borði og sæng og þá þarf að sækja um lögskilnað fyrir dómstólum.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Að sex mánuðum liðnum er hægt að fylla út eyðublað sem heitir „lögskilnaður eftir skilnað að borði og sæng“ á vef sýslumanns.

    — Ef ekki er samkomulagi þarf að höfða mál fyrir dómi, en þá þurfa að vera liðnir 12 mánuðir.

    — Ef þú ert í vafa hafðu þá samband.

  • Í undantekningartilvikum er hægt að fara beint í lögskilnað en yfirleitt er ekki þörf á því. Öll réttindi tengd skilnaði kvikna við skilnað að borði og sæng og er þá t.d. hægt að flytja í sundur lögheimili hjónanna og eftir það eru hjónin skattlögð í sitt hvoru lagi og fleira. Helsti munurinn felst í því að ef hjón taka saman aftur eftir skilnað að borði og sæng fellur skilnaðurinn niður og þau eru aftur gift en ef hjón taka saman aftur eftir lögskilnað þurfa þau að gifta sig að nýju. Þá er ekki hægt að giftast öðrum nema vera lögskilinn.

  • Ef sambúðarfólk á ekki börn þá slíta þau sambúð sinni einfaldlega með því að senda tilkynningu til Þjóðskrár um breytt lögheimili. Þegar lögheimilin flytjast í sundur þá slitnar sambúðin sjálfkrafa. Ef sambúðarfólk á börn þurfa þau hins vegar að fara til sýslumanns og gera samkomulag um málefni barnanna, líkt og hjón þurfa að gera. Sambúð fólks sem á börn verður ekki slitið fyrr en slíkt samkomulag liggur fyrir.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Ef þú átt ekki börn yngri en 18 ára þá fara á heimasíðu Þjóðskrár og flytja lögheimili

    — Ef þú átt börn yngri en 18 ára þarf að ná samkomulagi um málefni þeirra og panta tíma hjá sýslumanni

    — Skoða hvort þurfi samkomulag um fjárskipti (sjá fjárskipti við sambúðarslit)

    — Ef þú ert í vafa hafðu þá samband.

  • Grunnreglan við fjárskipti við hjónaskilnað er helmingaskiptaregla og er fjallað um hana og aðrar reglur um fjárskipti hjóna í hjúskaparlögum. Í einfaldaðri mynd gengur helmingaskiptareglan út á að hvort hjóna um sig fá jafnt í sinn hlut við fjárskiptin, þ.e. hreinni eign er skipt til helminga en taka þarf ákvarðanir um hver fær hvaða eign í sinn hlut og hver beri ábyrgð á hvaða skuldbindingum. Ef annað hjóna fær verðmætari eignir í sinn hlut við fjárskiptin en hitt þarf venjulega að greiða peningagreiðslu á milli til jöfnunar. Til eru undantekningar frá helmingaskiptareglu en þær eru fremur þröngar og ekki algengt að til þeirra sé gripið.

    Rétt er þó að taka fram að hvort hjóna um sig ber ábyrgð á sínum skuldum og það er ekki hægt að láta skuldir sínar ganga yfir til maka síns. Eina undantekningin frá þessu eru skattskuldir sem mögulega verða til á hjúskapartímanum, en hjón og sambúðarfólk bera óskipta ábyrgð á skattskuldum beggja sem verða til meðan þau eru samsköttuð.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Fara vel yfir hvaða eignir hjón eiga og hverjar skuldirnar eru

    — Komast að samkomulagi um skiptingu eigna og skulda og útbúa samning um það

    — Panta tíma hjá sýslumanni

    — Ef þú ert í vafa hafðu þá samband.

  • Til að slíta sambúð þarf ekki samningur um fjárslit að liggja fyrir en margir vilja hins vegar gera slíkan samning til að ganga frá fjárskiptum sínum. Við fjárskipti við sambúðarslit gildir ekki helmingaskiptaregla eins og gildir um hjón og engin lög gilda um fjárskipti við sambúðarslit heldur er stuðst við dómafordæmi og óskrifaðar reglur eða venjur. Grunnreglan er sú að hvor sambúðaraðili um sig taki þær eignir sem það átti fyrir sambúðina og eignaðist meðan á sambúðinni stóð en frá þessari reglu eru þó margar og veigamiklar undantekningar. Þannig geta fjárskipti við sambúðarslit orðið ívíð flóknari en við hjónskilnað.

    Hagnýtar upplýsingar – hvað geri ég?

    — Fara vel yfir hvaða eignir sambúðarfólk eiga og hverjar skuldirnar eru

    — Komast að samkomulagi um skiptingu eigna og skulda og útbúa samning um það

    — Ef þú ert í vafa hafðu þá samband.